(Translated by https://www.hiragana.jp/)
Montreux - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Montreux

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.
Montreux
Skjaldarmerki Montreux
Staðsetning Montreux
KantónaVaud/Waadt
Flatarmál
 • Samtals33,40 km2
Hæð yfir sjávarmáli
390 m
Mannfjöldi
 • Samtals24.579 (31 des 2.010)
Vefsíðawww.montreux.ch Geymt 30 desember 2017 í Wayback Machine

Montreux er þriðja stærsta borgin í kantónunni Vaud í Sviss. Hún er þekkt fyrir tónlistarviðburði og afar fagurt fjallaumhverfi.

Lega og lýsing

Montreux liggur við austurenda Genfarvatns, austarlega í kantónunni. Næstu borgir eru Lausanne til vesturs (30 km), Bern til norðurs (80 km) og Sion til suðausturs (70 km). Um 75% íbúanna eru frönskumælandi.

Skjaldarmerki

Skjaldarmerki Montreux er samsett úr bæjunum Châtelard og Les Planches. Kirkjan til hægri er aðalkirkjan í Montreux í dag.

Orðsifjar

Heitið Montreux er dregið af orðinu monasterium, sem merkir klaustur.

Söguágrip

  • Á miðöldum tilheyrði borgarsvæðið klaustrinu Saint-Maurice í Valais, seinna biskupnum í Sion.
  • 1317 varð svæðið og byggðin eign Savoy.
  • 1536 hertók Bern allt svæðið.
  • 1803 var svæðið innlimað í nýstofnaðri kantónunni Vaud. Bæirnir voru þrír: Châtelard, Veytaux og Les Planches.
  • Síðla á 19. öld urðu bæirnir þekktir ferðamannabæir. Þekktir þjóðhöfðingjar sóttu þá heim, sem og þekktir listamenn.
  • 1962 sameinuðust bæirnir Châtelard og Les Planches og fékk nýi bærinn heitið Montreux. Íbúar Veytaux kusu að sameinast ekki nýja bænum.
  • Eftir heimstyrjöldina síðari varð Montreux þekktur sem hátíðar- og tónlistarbær.

Viðburðir

Minnisvarði um Freddie Mercury
  • Montreux Jazz Festival er mikil tónlistarhátíð í borginni. Hún var fyrst haldin 1967 og tróðu margir frægir jazzarar upp, svo sem Ella Fitzgerald, Aretha Franklin, Count Basie og margir fleiri. Í gegnum árin hafa aðrar tónlistarstefnur, svo sem popp og rokk, haldið innreið sína í hátíðina. Þannig hafa tónlistarmenn og hljómsveitir á borð við Led Zeppelin, Frank Zappa, Simon & Garfunkel, Mike Oldfield, Carlos Santana, Leonard Cohen, Johnny Cash, Van Morrison, Deep Purple, Prince, Muse og margir fleiri leikið og sungið á hátíðinni. Fyrsta hátíðin stóð í þrjá daga. Á síðustu árum hefur hún hins vegar lengst og stendur að jafnaði yfir í rúmar tvær vikur.
  • Tónlist. Í Montreux er hljóðver og hafa ýmsar hljómsveitir tekið upp albúm þar. Þar má nefna hljómsveitina Queen, sem um árabil dvaldi í Montreux. Á gönguleiðinni við vatnsbakka Genfarvatns er stytta söngvarans Freddie Mercury en hann dvaldi lengi í Montreux. Minnisvarðinn var reistur eftir andlát hans 1991. Á tónleikum með Frank Zappa árið 1971 í spilavítinu í Montreux gerðist það að kveiknaði í húsinu og brann það niður. Viðstaddir tónleikana var hljómsveitin Deep Purple og sömdu þeir í kjölfarið lagið fræga Smoke on the Water, til minningar um brunann.
  • Rose d'Or er heiti á sjónvarpshátíð sem stofnuð var í Montreux 1961. Hér er um sjónvarpsefni að ræða, en eftir sýningar á útvöldu efni eru verðlaunin Gullna rósin veit fyrir besta sjónvarpsefnið. Verðlaunahafar eru oft frá öðrum löndum og meðal verðlaunahafa má nefna Barbra Streisand and other Musical Instruments, The Muppet-Show, The Benny Hill Show, Spitting Image, Mr. Bean, Monty Python og marga fleiri. Hátíðin hefur verið haldin árlega í Montreux frá 1961 til 2004, er hún var flutt til Luzern.

Vinabæir

Montreux viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Gallerí

Heimildir