(Translated by https://www.hiragana.jp/)
Vilém Flusser - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Vilém Flusser

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vilém Flusser (12. maí 192027. nóvember 1991) var tékkneskur heimspekingur, rithöfundur og blaðamaður. Hann bjó víða um Evrópu yfir ævi sína, meðal annars í Brasilíu í borginni Sao Paulo og öðlaðist brasilískan ríkisborgararétt. Flusser fékkst einkum við miðlafræði, heimspeki og málvísindi. í fyrri ritum sínum var Flusser undir miklum áhrifum frá þýska heimspekingunum Martin Heidegger, einkum og sér í lagi á sviðum tilvistarstefnu og fyrirbærafræði. Á seinni árum voru tjáskipti hans megin umfjöllunarefni og spáði fyrir um endalok þess ritaða orðs. Aðeins einn tíundi hluti af verkum Flussers hafa verið gefin út og eru þau varðveitt í Vilém Flusser Archiv í Listaháskólanum í Berlín. Flusser lést árið 1991 í bílslysi í Frakklandi.

Vilém Flusser fæddist 12. maí árið 1920 í Prag, höfuðborg Tékklands. Fjölskylda hans voru menntamenn af gyðingaættum og lærði faðir hans, Gustav Flusser, stærðfræði og eðlisfræði hjá þekktum fræðimönnum, þar á meðal Albert Einstein. Flusser gekk í þýskan/tékkneskan grunnskóla og síðar þýskan menntaskóla. Árið 1938 hóf hann nám í heimspeki við lögfræðideild Charles-háskólans í Prag. Ári seinna hertóku Nasistar Tékkland og flúði Flusser ásamt konu sinni og tengdaforeldrum til Lundúna, til að ljúka námi sínu við LSE (London School of Economics and Political Science). Allir nánustu fjölskyldumeðlimir Flussers létu lífið í útrýmingarbúðum nasista í Buchenwald, Auschwitz og Theresienstadt.

Árið 1940 fluttist hann búferlum til Brasilíu ásamt eiginkonu sinni. Hann hóf störf sem verkamaður í útflutningsfyrirtæki og síðar hjá framleiðslufyrirtækinu Stabivolt. Allan frítíma sinn nýtti hann til lesturs og aflaði hann sér gríðarlegrar þekkingar á sviðum málvísinda, heimspeki og náttúrufræði. Upp úr sjötta áratugnum tók hann einnig að sér kennslu við ýmsa háskóla í Sao Paulo og starfaði sem blaðamaður. Einnig voru ritgerðir hans birtar í fræðitímaritum í Brasilíu. Fyrstu tvær bækur hans fjölluðu um málvísindi, sú fyrsta Language and Reality (Sao Paulo, Erder, 1963) og næsta The History of the Devil (Sao Paulo, Martins 1965) voru aðeins gefnar út í Brasilíu. Í upphafi áttunda áratugarins fluttist Flusser ásamt eiginkonu sinni Edith Flusser til Suður-Frakklands. Flusser var afar afkastamikill í skrifum sínum á áttunda áratugnum, einkum á sviðum miðlafræði.

Þrátt fyrir margvísleg umfjöllunarefni leit Flusser á sig fyrst og fremst sem heimspeking og kaus ritgerðaformið til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Ritgerðir hans eru stuttar og skorinortar en stíll þeirra fremur sérstakur. Flusser beitti gæsalöppum mjög gjarnan og ljá þær hugtökum kaldhæðnislegan blæ. Erfitt hefur einnig verið að staðsetja Flusser innan sviðs miðlafræðinnar þar sem hann endurskilgreinir almenn hugtök á borð við upplýsingar, mynd og ímyndunarafl eftir eigin höfði.

Vilém Flusser taldi að framleiðsla og viðtæk notkun nýrra tæknilegra miðla hefði djúpstæð áhrif á alla þætt mannlegrar tilvistar í hinum vestræna heimi. Breytingar á formgerð samskiptamiðla hefðu bein áhrif á stjórnmálaumræðu, siðfræði sem og fagurfræði samfélagsins. Þekktasta rit hans Um heimspeki ljósmyndunar (Towards a Philosophy of Photography) frá 1983 myndar ásamt næstu tveimur bókum Í veröld tæknilegra mynda (Into the Universe of technical Images) frá 1985 og Á ritverkið sér framtíð? ( Does Writing have a Future?) frá 1987 einskonar þríleik miðlafræðikenninga Flussers. Ritin voru fyrst gefin út í Þýskalandi og vöktu töluverða athygli innan þýsks menntasamfélags. í fyrstu bókinni Um heimspeki ljósmyndunar kynnir hann í fyrsta sinn hugtak sitt tæknilegar myndfleti (Technical Images) og eftir-sögu (Post-History). Með uppfinningu og þróun ljósmyndatækninnar hafi hún tekið við hlutverk skrifaðs texta og þar með lokið hinni eiginlegu, línulegu sögu heimsins. Flusser notar myndavélina sem dæmi og myndhverfingu fyrir hið fullkomna sjálfvirka gangverk (Apparatus) sem framleiðir tæknilega myndfleti. Flusser túlkaði ljósmyndina á annan hátt en margir aðrir kenningasmiðir ljósmyndunar á borð við Roland Barthes, Walter Benjamin og Susan Sontag. Hann leit á ljósmyndina sem vísun í hið ritaða orð fremur en glugga inn í hinn hlutlausa raunveruleika.

  • Bernardo, G.,Finger, A.,Guldin, R., (2011). Vilém Flusser: An introduction, (Minnesota: University Of Minnesota Press)
  • Flusser, Vilém (2000). Towards a Philosophy of Photography, (London: Reaktion Press)
  • Flusser, Vilém (2011). Vampyrotheuthis Infernalis, (New York: Atropos Press)
  • Fyrirmynd greinarinnar var „Vilém Flusser“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt júní 2012.