Alexander 6.
Alexander VI páfi (1. janúar 1431 – 18. ágúst 1503), sem hét upphaflega Rodrigo de Borja var leiðtogi Rómversk-kaþólsku kirkjunnar og Páfaríkisins frá 11. ágúst 1492 til dauðadags 1503.
Rodrigo fæddist inn í hina atkvæðamiklu Borgia fjölskyldu í Xàtiva, þá undir krúnunni í Aragóníu (nú Spánn) og lærði lögfræði við Bolognaháskólann. Hann var vígður djákni og gerður að kardínála árið 1456 eftir að frændi hans var kjörinn Kalixtus III páfi, ári síðar varð hann varakanslari kaþólsku kirkjunnar. Hann hélt áfram að þjóna í Páfaráði undir næstu fjórum páfum og öðlaðist veruleg áhrif og auð á meðan. Árið 1492 var Rodrigo kjörinn páfi og fékk nafnið Alexander VI.
Páfalegar tilskipanir Alexanders árið 1493 staðfestu eða endurstaðfestu réttindi spænsku krúnunnar í Nýja heiminum í kjölfar landafunda Kristófers Kólumbusar árið 1492. Í seinna Ítalíustríðinu studdi Alexander VI son sinn Cesare Borgia sem starfaði fyrir Frakkakonung. Utanríkisstefna hans var að ná sem hagstæðustu kjörum fyrir fjölskyldu sína.
Alexander er talinn einn umdeildasti endurreisnarpáfinn, meðal annars vegna þess hann viðurkenndi að hafa eignast nokkur börn með ástkonum sínum. Fyrir vikið varð ítalskvædda valensíska eftirnafn hans, Borgia, samheiti yfir sældarhyggju og frændhygli, sem jafnan er talið einkenna störf hans sem páfa. Á hinn bóginn lýstu tveir arftakar Alexanders, Sixtus V og Úrbanus VIII, honum sem einum mest framúrskarandi páfa síðan sjálfur Pétur postuli var og hét.