(Translated by https://www.hiragana.jp/)
Ferenc Puskás - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Ferenc Puskás

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ferenc Puskás
Upplýsingar
Fullt nafn Ferenc Purczeld Biró, „Puskás“
Fæðingardagur 1. apríl 1927
Fæðingarstaður    Búdapest, Ungverjalandi
Dánardagur    17. nóvember 2006
Leikstaða Sóknarmaður
Meistaraflokksferill1
Ár Lið Leikir (mörk)
1943–1949 Kispest A.C. 177 (187)
1949–1955 Honvéd 164 (165)
1957 Espanyol (gestur) ()
1958–1966 Real Madrid 182 (157)
Landsliðsferill
1945–1956
1961–1962
Ungverjaland
Spánn
85 (84)
4 (0)
Þjálfaraferill
1967
1967
1968
1968–1969
1970–1974
1975
1975–1976
1976–1977
1978–1979
1979–1982
1985–1986
1986–1989
1989–1992
1993
Hércules CF
San Francisco Golden Gate Gales
Vancouver Royals
Deportivo Alavés
Panathinaikos
Real Murcia
Colo-Colo
Sádi Arabía
AEK Aþena
Al-Masry
Club Sol de América
Cerro Porteño
South Melbourne Hellas
Ungverjaland

1 Leikir með meistaraflokkum og mörk
talið í aðaldeild liðsins.

Ferenc Puskás (fæddur 1. apríl 1927 í Búdapest, dó 17. nóvember 2006 í Búdapest) var ungverskur knattspyrnumaður og einhver þekktasti knattspyrnumaður heims fyrir afrek sín með ungverska landsliðinu og Real Madrid.

Ævi og ferill

[breyta | breyta frumkóða]
Puskás í leik gegn Újpest árið 1949.

Ferenc Puskás fæddist árið 1927 og hlaut nafnið Ferenc Purczeld. Foreldrar hans tilheyrðu þýska þjóðernisminnihlutanum í Ungverjalandi og breyttu þau ættarnafni sínu í Puskás árið 1937, svo það félli betur að ungversku. Puskás eldri hafði leikið knattspyrnu með Kispest A.C. sem síðar hlaut nafnið Honvéd og að keppnisferlinum loknum sneri hann sér að unglingaþjálfun hjá félaginu og var þar m.a. þjálfari sonarins, sem hann skráði undir fölsku nafni til að komast framhjá reglum um lágmarksaldur leikmanna. Síðar varð hann aðalþjálfari félagsins og urðu þeir feðgarnir saman Ungverjalandsmeistarar árið 1950.

Síðla árs 1943 lék Puskás sinn fyrsta leik með aðalliði Kispest, sextán ára gamall. Hann vakti þegar athygli og aðeins átján ára að aldri náði hann sínum fyrsta landsleik og skoraði þar í 5:2 sigri á Austurríkismönnum. Valdataka kommúnista í Ungverjalandi í ársbyrjun 1949 átti eftir að hafa mikil áhrif á þróun knattspyrnunnar þar í landi. Varnarmálaráðuneytið tók yfir rekstur Kispest sem var gert að yfirlýstu aðalliði hersins og á árinu 1950 var nafninu breytt í Honvéd, sem var stytting á nafni hersins. Félagið hafði fyrir yfir að búa nokkrum efnilegum leikmönnum, á borð við Puskás, en nú gátu stjórnendur félagsins látið kalla í herinn þá leikmenn sem þeir girntust og þótt heita ætti að áhugamennska væri við lýði í Ungverjalandi, æfðu leikmenn sem atvinnumenn en þáðu laun fyrir málamyndastörf hjá hernum.

Frá 1949 til 1955 varð Honvéd fimm sinnum ungverskur meistari og fljótlega fór orðspor liðsins að breiðast út fyrir heimalandið. Keppnisferðir Honvéd til annarra landa vöktu mikla athygli og urðu að einhverju leyti kveikjan að því að Evrópukeppni meistaraliða var komið á laggirnar. Það var ekki síst snilli Puskás sem hreif áhorfendur víða um lönd. Heima fyrir varð hann fjórum sinnum markakóngur í deildinni og árið 1948 varð hann markahæstur allra í Evrópu með 50 mörk á leiktíðinni.

Ungverska gullliðið

[breyta | breyta frumkóða]
Keppnistreyja og verðlaunapeningur Puskás frá ÓL 1952.

Það var á Ólympíuleikunum í Helsinki 1952 sem knattspyrnuheimurinn veitti ungverska landsliðinu fyrst raunverulega athygli. Puskás skoraði fjögur mörk á leikunum og átti stóran þátt í sigri sinna manna. Englendingar, sem töldu sig bera höfuð og herðar yfir aðrar Evrópuþjóðir á knattspyrnusviðinu, buðu Ungverjum til tveggja vináttuleikja, sem lauk með 6:3 sigri Ungverja á Wembley og 7:1 í Búdapest, með tveimur mörkum frá Puskás í hvorri viðureign. Úrslitin settu allt á annan endann og á augabragði urðu Ungverjar sigurstranglegasta liðið á næsta heimsmeistaramóti, í Sviss 1954.

Allt útlit var fyrir að velgengnisspárnar myndu rætast og Puskás skoraði þrjú mörk í tveimur leikjum Ungverja í riðlakeppninni í Sviss, þar á meðal í ótrúlegum 8:3 sigri á Vestur-Þjóðverjum. Í þeirri viðureign meiddist Puskás hins vegar og kom ekki aftur við sögu fyrr en í úrslitaleiknum. Þar voru mótherjarnir Vestur-Þjóðverjar á nýjan leik en þótt Puskás kæmi sínum mönnum yfir, reyndist þýska liðið sterkara og Puskás var sem skugginn af sjálfum sér í leiknum vegna meiðslanna.

Oft er vísað til ungverska liðsins á HM 1954 sem „besta liðsins sem ekki hafi tekist að vinna“. Sigur Vestur-Þjóðverja var raunar talinn svo óvæntur að talað var um hann sem kraftaverkið í Bern. Ungverjar höfðu því ástæðu til að ætla að lið þeirra yrði aftur sigurstranglegast á HM fjórum árum síðar en þá höfðu alþjóðastjórnmálin gripið í taumana.

Landflótti

[breyta | breyta frumkóða]
Innrás Sovétmanna í Ungverjaland 1956 varð afdrifarík.

Honvéd var meðal þátttökuliða í Evrópukeppni meistaraliða þegar hún fór fram í annað sinn veturinn 1956-57. Mótherjarnir í fyrstu umferð voru Athletic Bilbao. Eftir útileikinn á Spáni hafði dregið til tíðinda í heimalandinu þar sem herir Varsjárbandalagsins réðust inn til að berja niður uppreisnina í Ungverjalandi. Leikmenn Honvéd afréðu að snúa ekki aftur, þess í stað skipulögðu þeir keppnisferð víða um lönd í óþökk bæði FIFA og ungverska knattspyrnusambandsins. Að henni lokinni kusu sumir leikmannanna að halda aftur til síns heima, en aðrir - Puskás þar á meðal - gengu til liðs við félög í Vestur-Evrópu.

Lið á Spáni og Ítalíu höfðu þegar áhuga á að tryggja sér krafta Puskás, en þar sem FIFA dæmdi hann í tveggja ára keppnisbann fyrir að virða ekki samning sinn við Honvéd gat hann ekki gengið til liðs við annað félag fyrr en á árinu 1958. Juventus og AC Milan íhuguðu að semja við hann, en komust að þeirri niðurstöðu að hann væri of gamall og frjálslega vaxinn. Eftir að stór hluti leikmanna Manchester United fórust í flugslysi í München kom til tals að Puskás myndi ganga til liðs við félagið til að styrkja hópinn, en þau áform strönduðu á ströngum atvinnuleyfisreglum breskra stjórnvalda.

Real Madrid

[breyta | breyta frumkóða]
Puskás varpar mæðinni eftir 5:0 sigur Real Madrid á Feyenoord árið 1965.

Puskás var 31 árs þegar hann gekk í raðir Real Madrid, en fátítt var að leikmenn spiluðu langt inn á fertugsaldurinn. Hann var líka þéttari á velli en títt var um knattspyrnumenn. Hins vegar sló hann þegar í gegn og náði frá fyrstu stundu vel saman við félaga sinn í sókninni, Alfredo Di Stéfano. Á þessu fyrsta tímabili átti hann stóran þátt í að koma Madrídarliðinu í úrslit Evrópukeppni meistaraliða en missti af sjálfum úrslitaleiknum vegna meiðsla.

Alls vann Real Madrid þrjá Evrópumeistaratitla, einn heimsmeistaratitil félagsliða og fimm Spánarmeistaratitla með Puskás innanborðs. Á átta leiktíðum lék hann 182 deildarleiki og skoraði í þeim 157 mörk. Að auki skoraði hann 35 mörk í 39 Evrópuleikjum.

Á árinu 1962 fékk Puskás spænskt ríkisfang og varð þar með gjaldgengur í spænska landsliðið. Hann keppti fjóra leiki fyrir hönd Spánar og voru þrír þeirra á HM í Síle 1962. Árangur Spánverja á mótinu olli vonbrigðum sem kann að hafa ráðið því að landsliðsferillinn varð ekki lengri. Árið 1966 lagði hann skóna á hilluna, en ákvað þess í stað að snúa sér að þjálfun.

Þjálfunarferill

[breyta | breyta frumkóða]
Leikmenn Ajax og Panathinaikos fyrir úrslitaleikinn 1971.

Fyrsta þjálfunarverkefni Puskás var Hércules frá Alícante. Það var upphafið af löngum ferli þar sem hann stökk frá einu landinu til annars og þjálfaði félagslið í sex heimsálfum og tvö landslið þar að auki.

Markverðastur var árangur hans hjá Panathinaikos í Grikklandi, þar sem hann varð tvisvar sinnum grískur meistari og kom liðinu í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða árið 1971 en tapaði þar fyrir Ajax Amsterdam. Að auki varð hann einu sinni paragvæskur meistari og einu sinni ástralskur. Árið 1990 fluttist hann aftur til föðurlandsins og þremur árum síðar lauk hann þjálfaraferli sínum með því að stýra Ungverjum í fjórum landsleikjum.

Árið 2000 var Puskás greindur með Alzheimer og lést í Búdapest sex árum síðar. Hann fékk opinbera útför að viðstöddu fjölmenni. Ýmis mannvirki, þar á meðal knattspyrnuleikvangar, bera nafn hans í Ungverjalandi og á ári hverju veitir FIFA Ferenc Puskás-verðlaunin þeim leikmanni sem talinn er hafa skorað fallegasta markið á leikárinu.

  • Ungverskur meistari: 1949–50, 1950, 1952, 1954, 1955
  • Ólympíumeistari: 1952
  • Miðevrópumeistari: 1947-52
  • Balkan-bikarinn: 1947