Gunnar S. Gestsson
Gunnar Gestsson (f. 12. október 1913 — d. 24. júní 1982) var íslenskur listmálari.
Ungur hóf Gunnar ýmsa verkamannavinnu, bæði til sjós og lands á Stokkseyri og í Vestmannaeyjum. Gunnar hafði alltaf áhuga á myndlist og í barnaskóla fór hann strax að prófa sig áfram með vatnsliti og krítarlit. Málaralistina stundaði Gunnar meðfram vinnu en fljótlega fór hann að lifa af sölu eigin verka og hætti annarri vinnu.
Lífið reyndist Gunnari ungum mjög erfitt, hann veiktist af berklum á þrítugsaldri og var vart hugað líf. Tónlistin skipaði einnig stóran sess í lífi Gunnars, allt frá 6 ára aldri spilaði Gunnar á harmonikku á dansskemmtunum í Gimli á Stokkseyri.
Gunnar studdi mjög við hverskyns listform og málaði oftar en ekki leiktjöld fyrir leikfélagið á Stokkseyri. Í blaðaviðtali var Gunnar spurður hvernig stæði á því að hann spennti litaskalann svo mjög í verkum sýnum. Hann svaraði „Ef til vill er birta og gleði í málverkinu hjá mér, af því að ég hef lifað svo svarta ævi. Ég lifi öðru lífi í myndunum, hver veit, lífi sem ég þrái.“ Gunnar Gestsson lést á Sjúkrahúsi Suðurlands 24. júní 1982.