Leymah Gbowee
Leymah Gbowee | |
---|---|
Fædd | 1. febrúar 1972 |
Þjóðerni | Líberísk |
Menntun | Austur-Mennonítaháskólinn í Harrisonburg, Virginíu, Bandaríkjunum |
Störf | Aðgerðasinni |
Trú | Lúthersk[1] |
Verðlaun | Friðarverðlaun Nóbels (2011) |
Leymah Roberta Gbowee (f. 1. febrúar 1972) er líberískur friðarsinni og aðgerðasinni sem leiddi friðarhreyfingu kvenna til þess að binda enda á seinni borgarastyrjöldina í Líberíu árið 2003. Störf Gbowee og samstarfskonu hennar, Ellenar Johnson Sirleaf, stuðluðu að endalokum stríðsins og að friði sem varir enn í Líberíu. Með endalokum stríðsins voru einnig haldnar frjálsar forsetakosningar árið 2004 þar sem Sirleaf vann sigur. Ásamt Sirleaf og jemensku blaðakonunni Tawakkol Karman var Gbowee sæmd friðarverðlaunum Nóbels árið 2011 fyrir „friðsamlega baráttu fyrir öryggi kvenna og rétti kvenna til fullrar þátttöku til uppbyggingar friðar“.[2]
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Leymah Gbowee fæddist þann 1. febrúar árið 1972 í miðhluta Líberíu. Fyrri borgarastyrjöldin í Líberíu braust út þegar hún var sautján ára og varði í átta ár, til ársins 1997. Undir lok styrjaldarinnar sótti Gbowee þriggja mánaða námskeið í félagsráðgjöf á vegum UNICEF. Aðeins tveimur árum eftir lok styrjaldarinnar braust seinni borgarastyrjöldin í Líberíu út og Gbowee flúði til Gana ásamt eiginmanni sínum og þremur börnum.[3]
Gbowee bjó um hríð heimilislaus á götunni í Gana en ákvað að endingu að snúa heim til Líberíu ásamt börnum sínum. Eftir heimkomuna hóf hún þátttöku í starfsemi til að endurþjálfa fyrrum barnahermenn og gerðist sjálfboðaliði í friðarhreyfingu lúthersku kirkjunnar í Monróvíu. Eftir að hafa lesið sér til um friðarferli stofnaði Gbowee ásamt nígeríska lögfræðingnum Thelmu Ekiyor friðarhreyfingu kvenna undir nafninu Women in Peacebuilding Network.[3]
Gbowee og meðlimir friðarhreyfingarinnar gengu á markaði, kirkjur og í moskur og dreifðu bréfum þar sem líberískar konur voru hvattar til þess að nýta krafta sína í þágu friðar og krefjast aðildar að friðarferlinu. Með hreyfingunni sameinuðust konur af öllum trúarbrögðum og þjóðarbrotum í Líberíu til að krefjast friðar í samtökum undir nafninu Women of Liberia Mass Action for Peace.[3] Árið 2003 fór Gbowee fyrir kröfugöngu í Monróvíu þar sem þess var krafist að líberískir hermenn hættu að nauðga konum í stríðinu. Á sama tíma vakti Gbowee mikla athygli á hreyfingu sinni með því að hvetja líberískar konur til þess að fara í kynlífsverkfall þar til friði væri náð í landinu.[2]
Kvennahreyfingin átti drjúgan þátt í því að forseti Líberíu, stríðsherrann Charles Taylor, hrökklaðist frá völdum í ágúst árið 2003 og að samið var um frið fáeinum dögum síðar. Bráðabirgðastjórn tók við völdum þar til frjálsar forsetakosningar voru haldnar í október árið 2005. Í kosningunum vann bandamaður Gbowee, Ellen Johnson Sirleaf, sigur og tók við embætti forseta Líberíu í byrjun næsta árs.
Árið 2011 voru Gbowee og Sirleaf sæmdar friðarverðlaunum Nóbels ásamt Tawakkol Karman frá Jemen.[4] Gbowee hét því að nota sinn hluta verðlaunafésins til þess að koma á námsstyrkjakerfi fyrir stúlkur í Afríku og til að aðstoða konur sem hafa verið fórnarlömb stríðsátaka.[5]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Sjöfn Jóhannesdóttir (8. október 2011). „Leymah Gbowee er friðarverðlaunahafi“. Íslenska þjóðkirkjan. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. október 2011. Sótt 23. júní 2019.
- ↑ 2,0 2,1 Kolbeinn Þorsteinsson (11. nóvember 2011). „Konur friðar“. Dagblaðið Vísir. Sótt 23. júní 2019.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 Hildur Guðbjörnsdóttir (18. desember 2014). „18. desember í jóladagatalinu er … Leymah Gbowee“. Knúz. Sótt 23. júní 2019.
- ↑ „Þrjár konur deila friðarverðlaunum“. RÚV. 7. október 2011. Sótt 23. júní 2019.
- ↑ „Stefnir á alheimsfrið“. mbl.is. 8. október 2011. Sótt 23. júní 2019.