Porta Nigra
Porta Nigra er gamalt rómverskt borgarhlið í þýsku borginni Trier og stærsta rómverska bygging Þýskalands í dag. Hliðið er jafnframt einkennisbygging borgarinnar og eitt þekktasta mannvirki Þýskalands. Það er á heimsminjaskrá UNESCO.
Saga hliðsins
[breyta | breyta frumkóða]Hliðið var reist af Rómverjum um 180 e.Kr. í tíð Markúsar Árelíusar keisara. Þeir kölluðu það Porta Martis, sem merkir Marshliðið. Hliðið var við norðurenda borgarinnar og var hluti þjóðvegarins til norðurs. Hins vegar var fljótt einnig talað um Porta Nigra, sem merkir Svartahliðið. Talað var um að hermennirnir fóru út um hliðið til orrustu (Mars var stríðsguð Rómverja). Svarti liturinn var sagður vera sorgin sem var meðal hermannanna eftir að margir þeirra lágu í valnum. Bæði heitin komu fyrir fram á miðaldir, en eftir það var bara talað um Porta Nigra. Hins vegar er hliðið mjög dökkt á að líta, sérstaklega þegar sandsteinninn fór að viðrast og dökkna með tímanum. 1028 settist einsetumaðurinn og munkurinn Simeon að í hliðinu. Þegar hann lést 1035, var hann grafinn undir byggingunni. Á sama ári var hann lýstur heilagur af páfa. Honum til heiðurs var Símeonkirkjan reist í og við hliðið, en Porta Nigra var mikill hluti þeirrar kirkju. Þar sem menn vildu aðeins hafa einn turn á Símeonkirkjunni (en Porta Nigra var með tvo flata turna), var annar turninn rifinn niður. Því er ásýnd hliðsins í dag nokkuð sérkennileg. Á miðöldum var jörðin í kringum hliðið hækkuð, þannig að inngangur hliðsins var neðanjarðar. Því var gengið inn á 2. hæð byggingarinnar. Símeonhliðið var því notað sem inngangur í staðin, en það stóð við hliðina á Porta Nigra. 1804 lét Napoleon rífa Símeonkirkjuna, þannig að Porta Nigra stóð aftur sem stök bygging. Auk þess var jarðvegur fluttur frá og jarðhæðin notuð á nýjan leik. Þessari vinnu lauk ekki fyrr en á tímum Prússa 1815. Eftir þessar framkvæmdir varð Porta Nigra fyrsta safn borgarinnar Trier. Á 8. áratug 19. aldar voru allir borgarmúrar rifnir, þar á meðal Símeonhliðið. Aðeins Porta Nigra fékk að standa, enda þá orðin víðþekkt bygging. Síðan þá hefur hliðið staðið óbreytt til dagsins í dag. Það slapp að öllu leyti við skemmdir og eyðileggingar í heimstyrjöldinni síðari. 1986 var Porta Nigra sett á heimsminjaskrá UNESCO.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirmynd greinarinnar var „Porta Nigra“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júní 2010.