Princeton-háskóli
Princeton-háskóli (enska: Princeton University) er staðsettur í bænum Princeton í New Jersey og er fjórði elsti háskólinn í Bandaríkjunum.[1] Princeton-háskóli, sem er oft talinn einn besti háskóli Bandaríkjanna,[2] hefur auk þess að bjóða upp á grunnnám og framhaldsnám í hugvísindum, raunvísindum og félagsvísindum, arkítektaskóla, verkfræðiskóla og skóla fyrir stjórnsýslu- og alþjóðafræði. Við skólann eru stundaðar rannsóknir á mörgum sviðum, meðal annars í rafgaseðlisfræði, veðurfræði, og á þotuhreyflum.
Háskólinn er á tveimur háskólasvæðum. Aðalháskólasvæðið er í miðbæ Princeton en auk þess er háskólasvæði í lundi skammt frá bænum og nefnist „The Forestal Campus“. Þar eru rannsóknarstofur fyrir rafgaseðlisfræðiverkefni (Princeton Plasma Physics Laboratory, PPPL) og veðurfræðirannsóknir. Samvinna er með háskólanum og Brookhaven National Laboratories. Aðalbókasafn háskólans er Firestone-bókasafnið (gefið af Harvey S. Firestone og tekið í notkun 1948) en auk þess er veglegt bókasafn í listasafni háskólans.
Skólinn var stofnaður undir heitinu College of New Jersey árið 1746 en nú er annar skóli rekinn undir heitinu College of New Jersey. Upphaflega var skólinn í bænum Elizabeth í New Jersey. Árið 1756 var skólinn fluttur til Princeton og nafni skólans var formlega breytt í „Princeton University“ árið 1896.[3] Enda þótt skólinn hafi í upphafi verið rekinn sem skóli á kristnum grundvelli, með „Presbyterian“ viðhorf, er háskólinn ekki lengur kristinn háskóli og gerir engar trúarlegar kröfur til nemenda sinna. Princeton University er einn af átta skólum sem kenndir eru við „bergfléttudeildina“ eða Ivy League.
Í skólanum eru á fimmta þúsund grunnnemar og um tvö þúsund framhaldsnemar. Starfsmenn skólans er rúmlega ellefu hundruð talsins. Núverandi forseti háskólans er Christopher L. Eisgruber.
Saga skólans
[breyta | breyta frumkóða]Princeton University var stofnaður af hópi kristinna manna og var í fyrstu ætlað að mennta presta. Skólinn tók til starfa í Elizabeth í New Jersey undir heitinu College of New Jersey og Jonathan Dickinson var fyrsti forseti skólans. (Lagt var til að skólinn yrði nefndur eftir ríkisstjóranum, Jonathan Belcher, en því var hafnað.) Annar forseti skólans var faðir Aaron Burr; sá þriðji var Jonathan Edwards. Árið 1756 var skólinn færður til Princeton, New Jersey.
Frá þeim tíma er skólinn flutti til Princeton árið 1756 og þar til Stanhope Hall var byggt árið 1803 var Nassau Hall, nefnt eftir Vilhjálmi III af Englandi sem kominn var af Orange-Nassau ættinni (eða Oranje-Nassau á hollensku), eina bygging skólans. Meðan á sjálfstæðisbaráttu Bandaríkjanna stóð var bærinn Princeton hertekinn af báðum aðilum og byggingar skólans urðu fyrir miklum skemmdum. George Washington, hershöfðingi, og hans menn unnu sigur í orrustunni um Princeton, sem var háð á engi skammt frá í janúar árið 1777. Tveir af heldri borgurum Princeton skrifuðu undir sjálfstæðisyfirlýsinguna og um sumarið 1783 kom meginlandsþingið saman í Nassau Hall en þar með varð Princeton í reynd að höfuðborg Bandaríkjanna í fjóra mánuði. Nassau Hall, sem var illa leikið af fallbyssukúlum og eldum, var endurbyggt af Joseph Henry Latrobe, John Notman og John Witherspoon en nú hefur húsið verið endurbyggt verulega og stækkað frá upphaflegri hönnun Roberts Smith. Í gegnum tíðina hefur hlutverk þess breyst frá því að vera alhliða skólahúsnæði, með skrifstofum, heimavist, bókasafni, og skólastofum, í það að hýsa einungis skólastofur en nú er þar stjórnsetur háskólans.
Guðfræðideildin (Princeton Theological Seminary) skildi við háskólann árið 1812 vegna deilna um námsefni í guðfræði. Með þessu fækkaði nemendum og stuðningi við skólann um hríð.
Segja má að háskólinn hafi verið lítt kunnur þegar James McCosh, forseti, tók við völdum árið 1868. Þá tvo áratugi sem hann var við völd umturnaði hann námsskrá skólans, lét auka mjög rannsóknir í vísindum og byggja fjölda nýrra bygginga í gotneskum stíl sem síðan hefur einkennt háskólasvæðið allt.
Árið 1896 var heiti skólans formlega breytt úr College of New Jersey í Princeton University til heiðurs bænum þar sem skólinn hefur aðsetur. Á sama ári stækkaði skólinn mjög og varð formlega að „rannsóknarháskóla“ (university). Undir forystu Woodrows Wilson (árið 1905) voru gerðar umbætur í kennslumálum og voru fyrirlestrar leystir af hólmi af persónulegri kennslu fárra nemenda með hverjum kennara í hverri grein. Var þetta mikil nýlunda.
Árið 1930 var Institute for Advanced Study, sem ekki er tengt háskólanum, stofnuð í Princeton og varð fyrsta heimavistarrannsóknarstofnunin fyrir fræðimenn í Bandaríkjunum og var Albert Einstein skipaður meðal fyrstu prófessora hennar. Á 20. öld hafa fræðimenn, rannsóknarfólk og fyrirtæki streymt til Princeton frá öllum heimshornum.
Árið 1969 hleypti Princeton-háskóli inn fyrsta kvenkyns grunnnemanum. Árið 1887 hafði háskólinn reyndar starfrækt systurskóla í bænum Princeton, á Evelyn og Nassau götum, og nefndist hann Evelyn College for Women en eftir um það bil áratug var hann lagður niður. Mörgum árum síðar ákvað stjórn skólans að hleypa inn konum og sneri sér að því að umbreyta starfsemi skólans og aðstöðu í „kvenvænlegan“ skóla. Stjórnin hafði vart lokið þessu í apríl 1969 þegar inntökudeildin þurfti að byrja að senda út inntökubréf. Til að fjármagna fimm ára langa áætlun skólans um þetta voru honum fengnar 7,8 milljónir bandaríkjadala til þess að þróa nýja aðstöðu sem átti á endanum að hýsa um 650 kvenkyns nemendur við Princeton um árið 1974. 148 stúlkur, þar af um 100 nýnemar auk skiptinema sem voru lengra komnir í námi, hófu nám við Princeton University 6. september 1969 og var fjölmiðlafár af þeim sökum.
Princeton-háskóli hefur hýst ýmsa fræga fræðimenn, vísindamenn, rithöfunda og stjórnmálamenn, þ.á m. þrjá forseta Bandaríkjanna, Woodrow Wilson, Grover Cleveland og John F. Kennedy, sem varði haustönn fyrsta árs síns í háskóla við háskólann áður en hann yfirgaf skólann vegna veikinda; síðar hóf hann nám við Harvard University. Paul Robeson, skemmtikraftur og baráttumaður fyrir borgaralegum réttindum, ólst upp í Princeton og listamenn frá Ítalíu, Skotlandi og Írlandi hafa lagt að mörkum til byggingarsögu bæjarins. Arfleifð þessi, sem spannar alla sögu amerískrar byggingarlistar, er varðveitt í byggingum sem hannaðar voru af arkítektum á borð við Benjamin Latrobe, Ralph Adams Cram, McKim, Mead & White, Robert Venturi og Michael Graves.
Um Princeton
[breyta | breyta frumkóða]Meðal „Ivy League“-skólanna er Princeton-háskóli almennt talinn einbeita sér mest að grunnnemunum. Princeton býður upp á tvær námsgráður í grunnnámi: B.A.-gráðuna (sem heitir A.B. gráða í Princeton) og B.S.-gráðuna í verkfræði (sem heitir B.S.E. gráða í Princeton). Námskeið í hugvísindum eru venjulega annaðhvort málstofur eða vikulegir fyrirlestrar auk umræðutíma, sem nefnast „precept“ (stytting á „preceptorial“). Til að brautskrást verða allir A.B. nemar að ljúka rannsóknarritgerð á síðasta ári og einu eða tveimur viðamiklum sjálfstæðum rannsóknarverkefnum, sem nefnast „junior papers“ eða „JPs“. Þeir verða einnig að fullnægja skilyrði um tveggja anna nám í erlendu máli og ákveðnum kröfum um dreifingu á einingum. B.S.E. nemar uppfylla aðrar kröfur með minni kröfum um dreifingu eininga en yfirleitt þó nokkrum námskeiðum innan raunvísindanna og minnst tveggja anna langt sjálfstætt rannsóknarverkefni.
Princeton-háskóli býður upp á rannsóknatengt framhaldsnám (einkum doktorsnám til Ph.D.-gráðu) og telst vera í fremstu röð á mörgum sviðum, m.a. stærðfræði, eðlisfræði, hagfræði, sagnfræði, fornfræði og heimspeki. Aftur á móti hefur skólinn ekki umfangsmikla starfsþjálfun líkt og margir háskólar — til dæmis er engin læknadeild, hjúkrunarfræðideild, tannlæknadeild eða viðskiptafræðideild (skammlíf lagadeild lagði upp laupana árið 1852). Frægasti starfsþjálfunarskóli Princeton er Woodrow Wilson School of Public and International Affairs (betur þekktur innan veggja skólans sem „Woody Woo“), sem var stofnaður árið 1930 sem „School of Public and International Affairs“, en nafninu var breytt árið 1948. Skólinn býður einnig upp á starfsþjálfun á framhaldsstigi í verkfræði og arkitektúr.
Bókasöfn háskólans hafa að geyma yfir 11 milljónir bóka[4] og aðalbókasafn skólans, Firestone Library, hýsir yfir sex milljónir bóka[5] og telst eitt stærsta háskólabókasafn veraldar (og er raunar stærsta bókasafn veraldar með „opinn aðgang að bókum“). Bókasafnið er hins vegar ekki opið almenningi. Auk Firestone hafa margar fræðigreinar eigin bókasöfn, þ.á m. arkitektúr, listasaga, Austur-Asíufræði, verkfræði, jarðfræði, alþjóðafræði og miðausturlandafræði. Efribekkingar í sumum deildum geta tekið frá lesborð á Firestone-safninu.
Princeton University hefur einnig þriðju stærstu háskólakapellu veraldar, Princeton University Chapel. Kapellan, sem er vel kunn fyrir gotneskan stíl sinn, hýsir eitt stærsta og verðmætasta safn af steindu gleri í Bandaríkjunum. Skólasetning jafnt sem skólaslit fyrir brautskráða nemendur eru haldin í kapellunni.
Háskólasvæðið, sem er á 2 km²; svæði, hefur margar byggingar í nýgotneskum stíl, flestar frá 19. öld og snemma á 20. öld. Skólinn er í um klukkustundarfjarlægð frá tveimur stórborgarsvæðum, New York-borg og Philadelphiu. Aðalstjórnsýslubygging skólans, Nassau Hall, var byggð árið 1756 og var þinghús Bandaríkjanna um skamma hríð árið 1783. Stanhope Hall (sem eitt sinn var bókasafn en er núna lögreglustöð háskólans og samskiptastöð) og East College og West College, hvort tveggja heimavist, fylgdu í kjölfarið. Þrátt fyrir að margar bygginganna sem voru síðar byggðar – einkum heimavistirnar á norðanverðu háskólasvæðinu – hafi verið byggðar í gotneskum stíl er háskólinn nokkurs konar suðupottur bandarískrar byggingarlistar. Grísk hof (Whig Hall og Clio Hall) standa við túnið sunnan við Nassau Hall leikhúsið Murray-Dodge Hall er vestan við túnið við gangveginn til bókasafnsins. Nútímabyggingar eru einkum á vestanverðu og sunnanverðu háskólasvæðinu, hverfi sem 14 hæða hár Fine Hall turn gnæfir yfir. Fine, sem er heimili stærðfræðideildarinnar, hannaður af Warner, Burns, Toan og Lunde og tekinn í notkun árið 1970, er hæsta bygging háskólans. Meðal nýlegra bygginga má nefna Frist Campus Center (sem bregður fyrir í sjónvarpsáttum um lækninn House). Höggmyndir prýða háskólasvæðið víða, m.a. verk eftir Henry Moore, Clement Meadmoore og Alexander Calder. Við enda háskólasvæðisins eru Delaware og Raritan skurðirnir frá því árið 1830 og Carnegie-vatn, sem er manngert stöðuvatn sem auðkýfingurinn Andrew Carnegie gaf skólanum undir kappróður.
Princeton-háskóli er meðal auðugustu háskóla veraldar en fjárfestingar skólans nema rúmlega tíu milljörðum bandaríkjadala og er haldið uppi af gjöfum fyrrverandi nemenda og fjárfesta. Hluti af fjármunum skólans er fjárfestur í listasafni hans, þar sem eru m.a. verk eftir Claude Monet og Andy Warhol auk annarra kunnra listamanna. Princeton-háskóli er auðugastur „Ivy League“ skólanna miðað við fjölda nemenda.
Fjárhagsstuðningur
[breyta | breyta frumkóða]Princeton Review útnefndi Princeton-háskóla einn þeirra skóla sem auðveldast væri að hafa efni á í Bandaríkjunum. Skólinn hefur nýtt auð sinn til að laða til sín nemendur með styrkjum og niðurfellingu gjalda og árið 2001 hætti skólinn að veita námslán en veitir öllum nemendum styrk í staðinn sem uppfylla skilyrði fyrir slíkt. Þetta skref, sem á sér enga hliðstæðu, fylgdi í kjölfarið á því að byrjað var að efla fjárhagsaðstoð skólans upp úr 1998. Í því fólst meðal annars að: hleypa inn erlendum nemendum óháð fjárhagslegri þörf, rétt eins og bandarískum nemendum; að hætta að taka til greina verðmæti heimilis í útreikningum á því hversu mikið ætlast er til að foreldrar borgi til skólans; draga úr ætluðu framlagi frá nemandanum sjálfum; og draga úr kröfum um að tekjuminni nemendur vinni með námi eða vinni á sumrin. Bæði Princeton Review og US News geta þess að Princeton hafi fæsta skuldsetta brautskráða nemendur. Þar sem nemendur taka ef til vill lán eftir sem áður til að standa straum af ýmsum kostnaði gera skólayfirvöld ráð fyrir að nemendur brautskráist að meðaltali með skuldir upp á 2360 dali. Meðaltal á landsvísu í Bandaríkjunum er um 20.000 dalir. Um 60% þeirra sem munu brautskrást 2009 njóta einhvers konar fjárhagsaðstoðar.
Grunnnám
[breyta | breyta frumkóða]Grunnnemar skólans samþykkja að fylgja reglu um heiðarleg vinnubrögð sem nefnist „honor code“. Nemar skrifa undir öll próf sem þeir taka í skólanum með orðunum „I pledge my honor that I have not violated the Honor Code on this examination“ eða „ég heiti og legg að veði heiður minn að ég hafi ekki brotið gegn reglunni um heiðarleg vinnubrögð á þessu prófi“. Einnig er gerð sú krafa til nemenda að þeir greini nefnd sem rekin er af nemendum sjálfum frá öllum grunsemdum um svindl. Vegna þessa kerfis þreyta nemendur oftar en ekki próf án yfirsetu kennara eða annarra starfsmanna skólans. Það er litið alvarlegum augum reynist nemandi sekur um óheiðarleg vinnubrögð og hlýtur hann þunga refsingu, stundum rekinn frá námi. Hvers kyns æfingar utan námskeiða eru utan umdæmis nefndarinnar en oft er þó ætlast til að nemendur skrifi undir og heiti heiðarlegum vinnubrögðum t.d. að þeir hafi ekki gerst sekir um ritstuld („This paper represents my own work in accordance with University regulations“ eða „ritgerð þessi er mitt eigið verk í samræmi við reglur háskólans“).
Flestir nemendur búa á háskólasvæðinu á heimavistum. Nýnemar og annars árs nemar búa allir á heimavistum, en þriðja og fjórða árs nemar eiga þess kost að búa utan háskólasvæðisins. Fáir velja að gera það vegna þess að leigukostnaður í bænum Princeton er nokkuð hár. (Margir sem búa utan háskólasvæðisins bjuggu í bænum áður en þeir hófu nám í skólanum.) Félagslíf grunnnema á sér að miklu leyti stað í svonefndum „átklúbbum“ sem efribekkingar eiga kost á að gerast félagar í og gegna að ýmsu leyti svipuðu hlutverki og bræðra- og systrafélög á öðrum háskólasvæðum.
Samkeppnin um inntöku í skólann er gríðarlega mikil og samkvæmt tímaritinu Atlantic Monthly er samkeppnin næstmest allra háskóla í Bandaríkjunum á eftir MIT. Um 10% umsækjenda fá inntöku í skólann. Samkvæmt inntökustefnu skólans eru ákvarðanir teknar um umsóknir óháð efnahag nemenda. Einungis er valið eftir verðleikum nemenda burtséð frá því hvort þeir geta staðið straum af skólagjöldunum eða ekki. Ólíkt öðrum háskólum sem gera ráð fyrir að nemendur taki lán til að standa straum af skólagjöldunum borgar Princeton University einfaldlega með þeim nemendum sem hafa ekki efni á skólavistinni. Princeton University var fyrsti háskólinn til þess að taka upp slíka „námslánalausa” stefnu árið 2001. Þrátt fyrir þessa stefnu eru nemendur skólans oft taldir íhaldssamari og hefðbundnari en nemendur margra annarra skóla. Svo virðist sem skólayfirvöld telji orðsporið til vandræða og Princeton haldið uppi strangri stefnu um margbreytileika meðal nemenda.
Árið 1869 keppti Princeton University við Rutgers háskóla í fyrsta ruðningsleiknum milli háskóla og tapaði með 4 mörkum gegn 6. Metingur skólans við Yale, sem hefur verið í gangi síðan 1873, er næstelstur í amerískum ruðningi. Á undanförnum árum hefur Princeton staðið sig vel í körfuknattleik karla, lacrosse karla og kvenna og róðri bæði karla og kvenna.
Princeton á einnig eitt besta ræðulið bandaríkjanna, American Whig-Cliosophic Society, sem er meðlimur í American Parliamentary Debating Association og hefur haldið heimsmeistarakeppni í kappræðum háskólaliða.
Heimavistir
[breyta | breyta frumkóða]Heimavistir grunnema eru heimili nýnema, annars árs nema og nokkurra þriðja og fjórða árs nema. Hver heimavist hefur auk íbúða nemenda matsal, lesherbergi, bókasöfn, myrkraherbergi og ýmis önnur þægindi.
Heimavistir Princeton-háskóla eru sem stendur fimm talsins en auk þess er ein til viðbótar í byggingu. Rockefeller College og Mathey College á norðvesturhluta háskólasvæðisins; gotnesk stíll bygginganna prýðir gjarnan bæklinga frá skólanum. Wilson College og Butler College, á sunnanverðu háskólasvæðinu, eru nýrri byggingar, sérstaklega byggðar til þess að vera heimavistir. Forbes College, sem er suðvestan við suðvesturhorn háskólasvæðisins, var áður hótel, sem háskólinn keypti og stækkaði til þess að hýsa grunnnema. Princeton hóf byggingu sjöttu heimavistarinnar, sem heitir Whitman College í höfuðið á styrktaraðilanum, Meg Whitman, stjórnarformans eBay, seint árið 2003. Hin nýja heimavist verður byggð í nýgotneskum byggingarstíl og er hönnuð af Demetri Porphyrios.
Princeton hefur eina heimavist fyrir framhaldsnema, sem heitir Graduate College og er rétt handan við Forbes College við útjaðar háskólasvæðisins. Staðsetning heimavistarinnar var niðurstaða deilu milli Woodrows Wilson og Andrew Fleming West sem var þá rektor framhaldsskólans. Wilson vildi fremur að heimavistin væri á miðju háskólasvæðinu en West vildi að framhaldsnemar byggju fjarri skarkala grunnnemanna. West hafði betur.[6] Stór bygging í gotenskum stíl er meginbygging Graduate College. Cleveland Tower prýðir bygginguna. Nýbyggingarnar New Graduate College hýsa fleiri nemendur. Þessar nýrri byggingar eru ekki í sama gotneska stíl og upphaflega heimavistin og minna helst á Butler College, yngstu heimavist grunnnemanna að Whitman College undanskilinni.
Heimavistirnar eru þó annað og meira en íbúðarhúsnæði og matsalir því á hverri heimavist myndast gjarnan sterk vinabönd milli þeirra sem þar búa og ýmsar uppákomur eru haldnar fyrir íbúa hverrar heimavistar, t.d. gestafyrirlesarar (svo sem Edward Norton, sem hélt sérstaka forsýningu á Fight Club á háskólasvæðinu), og ýmsar ferðir. Gjarnan er farið á leiksýningar til New York borgar. Ferðir á ballett sýningar eru ætíð vinsælar líkt og óperuferðir og leiksýningar á Broadway.
Íþróttir
[breyta | breyta frumkóða]Princeton er gjarnan meðal fremstu íþróttaliða Ivy League skólanna. Princeton Review sagði skólann 10da mesta íþróttaskóla Bandaríkjanna. Time Magazine telur skólann einnig meðal meðal sterkustu skólanna í háskólaíþróttum. Sports Illustrated hefur einnig talið Princeton University meðal þeirra tíu sterkustu í háskólaíþtóttum. Lacrosse lið skólans, bæði karla- og kvennaliðið, hafa unnið marga NCAA titla á undanförnum árum. Körfuknattleikslið Princeton er ef til vill þekktasta liðið í Ivy League deildinni.
6. nóvember 1869 lék lið Princeton fyrsta háskólaleikinn í amerískum ruðningi gegn liði Rutgers á heimavelli þeirra síðarnefndu. Í dag leika liðin ekki í sömu deild en skólarnir etja þó kappi í flestum öðrum íþróttgreinum.
Markverðir staðir
[breyta | breyta frumkóða]Nassau Hall
[breyta | breyta frumkóða]Nassau Hall er megin stjórnsýslubygging háskólans. Byggingin, sem er nefnd eftir Vilhjálmi 3. af Englandi sem komin var af Óraníuættinni (eða Oranje-Nassau á hollensku), er elsta bygging skólans.
Cannon Green
[breyta | breyta frumkóða]Cannon Green er sunnan við aðaltún skólans. Í miðjunni er grafin í jörðu fallbyssa, sem stendur upp úr jörðinni og er venjulega máluð appelsínugul ár hvert. Önnur fallbyssa er grafin fyrir framan Whig Hall. Báðar fallbyssurnar voru grafnar í jörðu til að forða þeim frá því að vera stolnar af nemendum nærliggjandi skóla.[7]
Í óskarsverðlauna myndinni A Beautiful Mind gerist eitt atriði á Cannon Green. John Nash leikur leik við keppinaut sinn í skólanum í miðjum garðinum.
McCarter Theater
[breyta | breyta frumkóða]McCarter Theater er mörgum kunnugt sem eitt af bestu leikhúsum landsins.
Listasafn Princeton University
[breyta | breyta frumkóða]Listasafn Princeton University er eitt besta háskólalistasafn í Bandaríkjunum. Stefna listasafnsins var í upphafi að veita nemendum beinan aðgang að listaverkum til þess að auðga anda þeirra og veita innblástur. Gestir safnsins eru þó mun fleiri en einungis nemendur og starfsfólk skólans, enda telst safnið í hópi betri safna í New Jersey.
Listaverkin eru um 60.000 talsins og eru allt frá fornminjum til nútímalistaverka, einkum frá svæðum við Miðjarðarhafið, Vestur-Evrópu, Kína, Bandaríkjunum, og Suður Ameríku. Listasafnið á safn af grískum og rómverskum fornminjum, meðal annars leirmuni, marmarastyttur, bronsstyttur og rómverskar mósaíkmyndir frá uppgreftri skólans í Antíokkíu. Frá evrópskum miðöldum eru höggmyndir, munir úr málmum, og gleri. Á meðal málverkanna frá Vestur Evrópu eru mikilvæg verk frá endurreisnartímanum til nítjándu aldar, og verkum frá 20. öld og samtímanum fer fjölgandi.
Kínverskir listmunir eru mikilvægur liður í safninu. Þá á safnið merka muni frá menningu Mayanna í Suður Ameríku.
Ýmsar staðreyndir
[breyta | breyta frumkóða]- Einkunnarorð skólans eru Dei sub numine viget eða „Í skjóli krafta guðs blómstrar hann“.
- Elsta bygging skólans er Nassau Hall en hún er nefnd eftir Vilhjálmi III af Englandi sem kominn var af Orange-Nassau ættinni (eða Oranje-Nassau á hollensku).
- Einkennislitur skólans, sem vísar einnig til Orange-Nassau ættarinnar, er appelsínugulur.
- Einkennisdýr skólans er tígrisdýr.
- Nafn skólans er oft stytt í P'ton
Princeton í skáldskap
[breyta | breyta frumkóða]Í kvikmyndinni Batman Begins kemur fram að Bruce Wayne var nemandi í Princeton, enda þótt hann hafi kosið að klára ekki námið eftir að hann hafði snúið aftur heim (það er fullt starf að vera leðurblökumaðurinn).
Kvikmyndin A Beautiful Mind frá 2001 gerist í Princeton University og í henni eru góðar myndir frá háskólasvæðinu. (Kvikmyndin var byggð á ævisögu Johns Nash sem var prófessor við Princeton.)
Kvikmyndin I.Q., með Meg Ryan og Tim Robbins í aðalhlutverkum og Walter Matthau sem Albert Einstein gerist í Princeton. Atriði þar sem persóna Tims Robbins heldur fyrirlestur er tekið upp í herbergi 302 í Frist Campus Center.
Bókin Belladonnaskjalið, auk nokkurra ráðgátubóka eftir Ann Waldron, m.a. The Princeton Murders, Death of a Princeton President og Unholy Death in Princeton gerast á háskólavæði Princeton University og Princeton Theological Seminary.
Sjónvarpsátturinn House M.D. notar loftmyndir af háskólasvæðinu til að gefa mynd af hinum skáldaða spítala Princeton-Plainsboro Teaching Hospital. Frist Campus Center er byggingin, sem er notuð í þáttunum til að sýna ytra útlit sjúkrahússins.
Sondra Huxtable í The Cosby Show féll út úr Princeton.
Neðanmálsgreinar
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Princeton, Rutgers University og Columbia University voru allir stofnaðir um svipað leyti. Princeton virðist hafa verið fjórða stofnunin sem bauð upp á kennslu miðað við dagsetningar sem ekki er deilt um. Ef miðað er við stofnár gera bæði Princeton og University of Pennsylvania tilkall til þess að vera „fjórði elsti háskólinn“. University of Pennsylvania miðaði eitt sinn stofnun sína við árið 1749 sem gerði skólann að fimmta elsta háskóla Bandaríkjanna en árið 1899 ákvað stjórn skólans að miða við árið 1740. Sjá „Building Penn's Brand“ Geymt 20 nóvember 2005 í Wayback Machine og „Princeton vs. Penn: Which is the Older Institution?“ Geymt 19 mars 2003 í Wayback Machine.
- ↑ „Harvard, Princeton top 'best colleges' list“ Geymt 28 janúar 2007 í Wayback Machine skoðuð 16. ágúst 2006.
- ↑ Princeton's History — Parent's Handbook, 2005-06 Geymt 4 september 2006 í Wayback Machine (Princeton: Princeton University Press, 2005).
- ↑ „Firestone Library“. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. ágúst 2011. Sótt 8. desember 2006.
- ↑ „The Nation's Largest Libraries: A Listing By Volumes Held: ALA Library Fact Sheet Number 22“ skoðuð 30. júlí 2006: 6,224,270 skv. tölum frá ágúst 2005; 6,495,597 skv. tölum frá Princeton hjá Association of Research Libraries „ARL STATISTICS 2004‐05“ Geymt 17 janúar 2007 í Wayback Machine
- ↑ „„Andrew Fleming West"“. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. maí 2012. Sótt 8. desember 2006.
- ↑ „„Princeton-Rutgers Cannon War"“. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. september 2006. Sótt 8. desember 2006.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Princeton University“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 24. mars 2006.
- Rhinehart, Raymond, P., Princeton University: An Architectural Tour (New York: Princeton Architectural Press, 1999).
Myndasafn
[breyta | breyta frumkóða]-
Nassau Hall úr suðri
-
Klukkuturninn á Nassau Hall
-
Aðalinngangur Nassau Hall
-
Princeton University Square (horft í austur að Dickinson Hall)
-
Útilistaverk við Dickinson Hall og kapelluna
-
Útilistaverk
-
Clio Hall
-
Útilistaverk við Clio Hall
-
Prospect House
-
Prospect Garden
-
Útilistaverk við Prospect House
-
Alexander Hall
-
Útilistaverk sunnan Stanhope Hall
-
Útilistaverk fyrir framan listasafnið
-
Blair Arch
-
Lockhart Hall
-
Bogar sem tengja Foulke og Henry Hall (horft að Dickinson St.)
-
Heimavist grunnnema
-
Húsagarður 1903 Hall, heimavistar grunnnema
-
Skreytingar
-
Skreytingar
-
Frick Laboratory við Washington Road
-
Carl C. Icahn Laboratory
-
Weaver track
-
Princeton Stadium
-
Nassau Hall og Cannon Green úr suðri
-
Dod Hall
-
East Pyne
-
Henry Hall og 1901 Hall
-
Skreytingar
-
Skreytingar
-
Göngustígur meðfram University Place (séð til suðurs)
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]