Rómverska öldungaráðið
Rómverska öldungaráðið (latína: Senatus) var aðal þing Rómaveldis, bæði á lýðveldistímanum (sem hófst árið 513 f. Kr.) og í keisaradæminu (sem hætti að vera til á 6. öld). Sagt var að öldungaráðið hefði verið stofnað af Rómúlusi, stofnenda Rómarborgar í goðafræðinni, sem ráðgjafarráð með 100 höfuðum fjölskyldna í borginni, svokölluðum patres (feðrum). Þegar lýðveldið komst á var fjöldi öldungaráðsmanna aukinn upp í 300. Skýr greinarmunur var gerður á öldungarráðsmönnum, eins og sjá má af slagorði Rómaveldis, SPQR, þar sem S-ið stendur fyrir senatus (öldungaráð) en P-ið fyrir populus (fólk).
Þó svo að öldungaráðið hafi aldrei farið með löggjafarvald hafði það mikil áhrif í Rómaveldi. Það réð í ýmsar af helstu stöðum ríkisins og fór með mikið vald innan borgarinnar sjálfrar. Þar að auki var það öldungaráðið sem gat lýst yfir stríði. Líkt og önnur þing Rómverja fóru fundir þess alltaf fram í hofum. Vanalega var það Curia Hostilia en á nýársdag var fundað í hofi Júpíters Optimusar Maximus og fundir um málefni stríðs fóru fram í hofi Bellona. Trúarathafnir voru einnig nauðsynlegar áður en þingfundur gat átt sér stað.
Eftir rómverska öldungaráðinu eru efri deildir margra þinga kenndar. Þá er oftast notuð staðfærð útgáfa latneska heitisins senatus. Á íslensku er þó vaninn að þýða orðið og tala um öldungadeild. Orðið deild er þá notað þar sem um er að ræða þingdeild, ekki ráð, líkt og var í Róm. Dæmi um þetta eru efri deildir þinga Bandaríkjanna (senate), Ítalíu (senato) og Mexíkó (senado).