(Translated by https://www.hiragana.jp/)
Skipsfáni - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Skipsfáni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Skipafánar)
Breskt lystiskip í höfn í Toulon með breskan sjófána og franskan gistifána

Skipsfáni er fáni sem notaður er á skipum. Á skipum er sjófáni þess ríkis þar sem skipið er skráð hafður uppi á skut skipsins eða út frá aftasta mastri. Sum ríki hafa ekki sérstakan sjófána (t.d. Ísland) og er þá notast við þjóðfána í staðinn. Sú almenna regla að þjóðfánann skuli bera hæst þar sem margir fánar eru saman gildir ekki á skipum þar sem fáninn er oftast á skut skipsins. Talað er um að skip sigli undir hentifána þegar þau eru skráð í öðru landi en því sem þau eru gerð út frá. Sjófána á oftast að hafa uppi þegar siglt er inn og út úr höfn og þegar siglt er um landhelgi erlendra ríkja. Sum ríki hafa aðgreinda kaupskipafána, ríkisskipafána og herskipafána og jafnvel sérstaka skemmtiskipafána til að aðgreina ólíkar tegundir skipa. Oftast gilda strangar reglur um notkun ríkisfána og herfána. Á Íslandi er til dæmis tjúgufáninn aðeins notaður á skipum íslenska ríkisins, eins og varðskipum Landhelgisgæslunnar.

Á herskipum er auk sjófána notaður gunnfáni sem hafður er uppi í stafni skips. Einkennisfánar eru notaðir á sama stað til að aðgreina skip frá herskipum þar sem ástæða er til þess.

Félagsfáni eða fyrirtækisfáni er fáni þess skipafélags sem gerir skipið út. Áður fyrr voru slíkir fánar hafðir við hún á stórsiglu skips.

Klúbbfáni er fáni siglingafélags og er hafður uppi þegar skip siglir milli hafna eða úr og inn í höfn, en ekki í siglingakeppnum. Þegar félagar úr einu félagi heimsækja annað félag er hefð fyrir því að skiptast á klúbbfánum. Klúbbfáni er yfirleitt hafður á hliðarstagi stjórnborðsmegin, oftast á neðra hliðarstagi. Á vélbátum er klúbbfáninn hafður á lítilli stöng í stefni.

Merkjafánar eru fánar sem tákna stafi í stafrófinu og eru notaðir til að koma skilaboðum frá skipum. Dæmi um merkjafána eru H-fáninn (tvískiptur rauður og hvítur) sem er notaður á hafnsöguskipum og A-fáninn, tvískipt blátt og hvítt merki sem varar aðra báta við því að kafari er að störfum við skipið. Merkjafánar eru líka notaðir í siglingakeppnum.

Gistifáni er lítil veifa með sjófána þess ríkis sem erlent skip siglir við og er flaggað á hliðarstagi stjórnborðsmegin eða á stefni. Reglur um notkun slíkra fána eru mismunandi milli ríkja. Sum staðar er notkun þeirra bönnuð nema á fánadögum en annars staðar er hún skylda. Ekki á að flagga gistifána fyrr en búið er að tollskoða skip og hleypa því inn í landið. Þangað til á að flagga gulum Q-merkjafána til að sýna að skipið er óskoðað. Eins getur verið hefð fyrir því að flagga fána lands þeirra áhafnarmeðlima sem eru frá öðru landi en skipið sjálft á hliðarstagi.