(Translated by https://www.hiragana.jp/)
Verðtrygging - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Verðtrygging

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Verðtrygging felst almennt í því að verði á vöru, þjónustu eða skuldbindingum sé breytt eftir fyrirfram ákveðnum reglum, oftast í hlutfalli við vísitölur sem reiknaðar eru af viðurkenndum aðilum. Verðtrygging er einkum notuð til að tryggja að fjárskuldbindingar haldi verðgildi sínu, þó svo að gjaldmiðillinn sem þær eru í falli í verði miðað við þá vísitölu sem liggur til grundvallar. Með verðtryggingu lánsfjár og sparifjár er leitast við að tryggja að endurgreiðslur í framtíðinni haldi verðgildi sínu, eða kaupmætti, frá þeim degi sem lán er veitt eða sparnaður hefst.

Verðtrygging er stundum notuð þar sem verðbólga er há eða hefur verið há, til dæmis á Íslandi þar sem verðtryggð lán hafa verið boðin um árabil og náð mikilli útbreiðslu á lánamarkaði. Lengi vel tók verðtrygging mið af lánskjaravísitölu sem var notuð frá árinu 1979, en frá árinu 1995 hefur verið miðað við vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar og birtir opinberlega. Þar sem lán eru tengd við verðlagsþróun hækka þau í sama hlutfalli og verðbólga, eða lækka þá sjaldan sem verðhjöðnun á sér stað. Hækkun hlutaðeigandi vísitölu getur haft víðtæk áhrif og veldur því meðal annars að skuldir þeirra sem tekið hafa verðtryggð lán hækka að nafnvirði, þ.e. í krónum talið, og greiðslubyrði þeirra þyngist að sama skapi í krónum. Bæði höfuðstóll og greiðslubyrði standa hins vegar í stað að raunvirði (kaupmætti) því að hver króna er minna virði en áður.

Tvenns konar aðferðum er beitt við útreikning verðtryggðra lána á Íslandi, annars vegar eru verðbætur reiknaðar og lagðar á greiðslur af láninu og hins vegar á höfuðstól skuldarinnar hverju sinni áður en greiðslur eru reiknaðar. Lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 heimila þó aðeins fyrrnefndu aðferðina þ.e. að verðbæta greiðslur, og hafa því verið uppi skiptar skoðanir um lögmæti þeirrar síðarnefndu þ.e. að verðbæta höfuðstól. Stærðfræðilega eru aðferðirnar hins vegar á endanum jafngildar.[1][2]

Allmargar ólíkar vísitölur eru reiknaðar út hér á landi. Í riti Seðlabanka Íslands, Hagtölum mánaðarins, eru birtar sjö vísitölur. Fleiri vísitölur eru reiknaðar út reglulega, oftast af Hagstofu Íslands. Einnig þekkjast aðferðir við verðtryggingu sem taka mið af fleiri en einni vísitölu, eða vísitölu sem er samansett úr nokkrum undirvísitölum.

Auk verðtryggingar miðað við verðlagsvísitölur tíðkaðist mestan hluta 20. aldar á Íslandi að verðtryggja fjárskuldbindingar miðað við gengi erlendra gjaldmiðla, en slík verðtrygging hefur jafnan verið kölluð gengistrygging. Með lögum um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 voru heimildir til að miða verðtryggingu skuldbindinga í íslenskum krónum við annað en vísitölu neysluverðs felldar brott, og hefur gengistrygging síðan þá verið óheimil á Íslandi.

Lagaumgjörð

[breyta | breyta frumkóða]
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  1. http://blog.dv.is/vthorsteinsson/2013/07/15/verdtryggd-lan-og-grunnskolastaerdfraedi/
  2. https://www.umbodsmadur.is/mal/nr/2294/skoda/mal