Orðaleikur eða skrafl?

nyinetskraflspokinn

Þessi mynd sýnir stafafjölda Kröflu og gildi þeirra.

Endur fyrir löngu kynntist ég og eignaðist Scrabble sem er orðaspil á ensku. Kringum 1990 var það gefið út á íslensku og seldist upp. Það var að mörgu leyti meingallað, enda lítil vísindi á bak við stafadreifingu og gildi þeirra. Stafagildi og stafahlutfall var meingallað og í engu samræmi við íslenska tungu. E-in voru sjö talsins og giltu 1 stig. Við þau var almennt erfitt að losna því E er yfirleitt eitt í orði. Ý, X, Ó, Ú og álíka stafir voru fáir og höfðu hæstu gildin. Þannig var hægt að leggja út Ý á góðan stað og fá allt að 60 stig fyrir. Sama mátti segja um hina hástafina. Fyrir vikið vó heppni of þungt á metum og lítið svigrúm var fyrir almenna herkænsku og útsjónarsemi. Spilið varð keppni um að leggja út sem lengst orð og geta dregið hástafina. Með þrjú E í bakkanum voru örlög viðkomandi spilara oftast ráðin. Þetta er í ósamræmi við það grundvallarlögmál leiksins sem er að erfiðast á að vera að koma út stigahæstu stöfunum.

Skrafláhugi í mínu nærsamfélagið dvínaði því og ég tók ekki upp þráðinn fyrr en haustið 2013 en þá varð netskraflið til.

Fyrsta netútgáfan á íslensku var frá Noregi og nefndist Orðaleikur. Það var óhentugt að mörgu leyti og Vilhjálmur Þorsteinsson forritaði því Netskraflið sem varð fljótlega afar vinsælt, enda notendavænt með afbrigðum. Þar eru skráðir notendur um 16 þúsund. Stafir og stafagildi úr fyrstu útgáfunni voru notaðir og fljótlega fóru notendur að kvarta undan sömu vanköntum og fyrir aldamót.

Skraflfélag Íslands gerði sér grein fyrir að endurbæta þyrfti stafahlutfall og stafagildi og lagðist í viðamiklar rannsóknir og útreikninga þar sem ofurtölvur voru látnar etja kappi í mörg þúsund viðureignum. Niðurstaðan varð nýr stafapoki með 100 stöfum og nýjum stafagildum. Meðalfjöldi orða sem hægt er að leggja niður í hverri umferð hefur aukist um 64%. Þessu fögnuðu netspilarar mjög og smám saman var gamli pokinn lagður á hilluna. Nú er spilið komið út með þessum nýja poka og heitir Krafla. Því hefur verið tekið með eindæmum vel í samfélagi skraflara og selst eins og heitu lummurnar margumtöldu.

Einnig er komið út á vegum Nordic Games það sem kallað er „Original Scrabble.“ Þar er greinilega notast við gömlu stafgildin og stafahlutföllin með tilheyrandi ókostum sem raktir verða hér á eftir. Fyrir vikið verður það aldrei meira en orðaleikur. Um það hafa framleiðendur sagt þetta: „Stigakerfið hefur verið endurreiknað og stafatöflurnar eru úr viði en leikurinn er í grunninn sá sami.“ Líka þetta: „…framleitt eftir leikreglum Scrabble um gerð spilsins eftir notkun á stöfum í hverju máli.“

nordicgamesskraflpokinn

Fyrir þessum fullyrðingum er lítil innistæða. Á myndinni hér til hliðar sjást stafagildin. Þau eru óbreytt. Einu breytingarnar sem ég tek eftir eru að E eru núna sex talsins en voru sjö. Ef þetta er í samræmi við leikreglur Scrabble um gerð spilsins eftir notkun á stöfum í hverju máli, væri gaman að sjá þær. Ég finn ekkert nema þetta yfirlit.  Að öðru leyti vísa ég til lýsingar hér í upphafi. Þetta er bara orðaleikur sem gengur út á að leggja sem flesta stafi á borðið til að verða á undan að fá hástafina, tilvalinn fyrir byrjendur og börn.


KRAFLA er skrafl eins og það á að vera.
Enn þarf maður að vera heppinn með stafi en nú reynir miklu meira á hæfni og útsjónarsemi en áður ásamt herkænsku og dirfsku. Krafla verður notuð á Íslandsmótum og öðrum mótum hér innanlands og á skraflkvöldum. Á netskraflmótum er spilað með Kröflustöfunum.

Af því að skrafl rímar við tafl, má geta þess að úngur lærði ég mannganginn í skák og undi við það í nokkur ár að færa taflmennina fram og til baka og máta mótherjann að lokum ef heppnin var með mér. Gamli stafapokinn í skrafli var á sinn hátt svolítið eins og manngangurinn. Fyrr eða síðar vill fólk aðeins meira. Mér sýnist valið verða auðvelt.

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.