Alexander Fleming
Sir Alexander Fleming (6. ágúst 1881 - 11. mars 1955) var skoskur líf- og lyfjafræðingur. Þekktur fyrir uppgötvun á ensíminu lýsósím árið 1922 og einangrun penisillíns úr sveppnum Penicillium notatum árið 1928. Frekari athugun og þróun reyndist honum erfið, hentaði betur efnafræðingum. Hann fékk ekki nægilegan stuðning frá læknasamfélaginu og á endanum hætti hann að vinna með efnið.
Það var ekki fyrr en í seinni heimsstyrjöldinni að áhugi kviknaði á þessari uppgötvun. Tveir vísindamenn, Howard Florey og Ernst Boris Chain, tóku við vinnunni og þróuðu efnið á form sýklalyfs. Í byrjun fimmta áratugarins hófst fjöldaframleiðsla á lyfinu, penisillin.
Fleming var sleginn til riddara árið 1944 fyrir framlag sitt og þeim Fleming, Florey og Chain voru veitt Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði fyrir einangrunina árið 1945.