(Translated by https://www.hiragana.jp/)
Gebhard Leberecht von Blücher - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Gebhard Leberecht von Blücher

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Blücher var þekktasti hershöfðingi Prússlands

Gebhard Leberecht von Blücher (16. desember 1742 í Rostock12. september 1819 í Krieblowitz í Póllandi) var eflaust mesti og færasti herforingi Prússlands. Hann barðist við Napoleon í nokkrum orrustum og náði loks að leggja hann að velli í stórorrustunni við Waterloo 1815, ásamt Wellington lávarði.

Skæruliði og bóndi

[breyta | breyta frumkóða]

Gebhard Leberecht von Blücher fæddist 1742 í þýsku borginni Rostock, sem þá tilheyrði Prússlandi. 24 ára gamall ákváðu Blücher og bróðir hans að ganga til liðs við Svía, sem börðu á Prússum skömmu eftir 7 ára stríðið. Fjórum árum síðar var hann tekinn til fanga af Prússum og sendur sem fangi til bæjarins Galenbeck. Þar heimsótti mágur hans hann og fékk hann lausan gegn því að Blücher undirritaði samning þar sem hann lofaði að berjast með Prússum. Blücher hækkaði brátt í tign og varð undirforingi í hernum. En í óróa i Póllandi 1772 lét hann taka prest af lífi, sem grunaður var um að æsa til mótmæla og uppreisnar. Þessi atburður varð til þess að Blücher missti tign sína og sagði hann sig úr hernum í kjölfarið. Hann settist þá að í Slésíu (Pólland í dag) og gerðist stórbóndi. Þar kvæntist hann og eignaðist sjö börn. Einnig gekk hann í frímúrararegluna í Pommern. Það var ekki fyrr en með andláti Friðriks Vilhjálms II Prússakonungs að Blücher var aftur tekinn í herinn. Brátt hækkaði hann í tign og varð aftur að undirforingja.

Orrustan við Auerstedt

[breyta | breyta frumkóða]
Blücher herforingi í borginni Bautzen

1806 réðist Napoleon inn í Prússland. Það dró til orrustu við Auerstedt og síðan við Jena, reyndar sama dag. Frakkar sigruðu Prússa við Auerstedt. Ástæðan fyrir því var óþolinmæði Blüchers. Hann var foringi riddaraliðsins. Í upphafi orrustunnar hleypti hann liði sínu beint í óþreytta og betur skipaða Frakka, sem höfðu lítið fyrir því að hrinda árásinni. Seinna sama dag var síðan barist við Jena. Enn var Blücher yfir riddaraliðinu og réði yfir 8.800 riddara. Frakkar höfðu aðeins um 1.300 riddara. Hins vegar voru Frakkar með 230 fallbyssur, gegn aðeins 44 hjá Prússum. Þessar staðreyndir voru herjunum hins vegar óljósar, enda fór orrustan við Jena fram í hálfgerðri þoku. Prússar gerðu ýmis mistök í orrustunni. Friðrik Vilhjálmur III konungur Prússlands hikaði og sendi ekki úrvalsliðið nógu snemma á orrustuvöllinn. Þess fyrir utan særðist hertoginn af Brúnsvík, aðalhershöfðingi Prússa, og var úr leik. Napoleon sá hik konungs og hleypti óþreyttu liði langt inn í óskipaðan prússneska herinn, sem við það byrjaði að flýja af hólmi. Napoleon stóð uppi sem sigurvegari. Prússar misstu 10 þús menn, Frakkar um 7.500. Þegar Prússar flýðu af hólmi var þoka enn yfir svæðinu. Blücher herforingi náði hins vegar að safna saman miklu liði og stöðva flóttann. Í skjóli þokunnar tókst honum að bjarga 34 fallbyssum og flýja til norðurs.

Orrustan um Lübeck

[breyta | breyta frumkóða]

Blücher flúði til borgarinnar Lübeck með liði sínu og fallbyssunum. Lübeck var á þessum tíma hlutlaust fríríki og herlaust. Meðan Napoleon sjálfur hertók Berlín, sendi hann marskálkana Bernadotte og Murat á eftir Blücher til Lübeck. Þeir komu þangað aðeins tveimur dögum eftir að Blücher sjálfur komst þangað. Eftir að hafa skannað borgina, ákváðu Frakkar að ráðast á borgina við borgarhliðið Burgtor, sem var að þeirra mati veikasta hliðið í varnarvirkjum Lübeck. Prússar vörðust þar af miklu harðfylgi, en voru langtum færri en Frakkar. Blücher skipaði fyrir að hindra inngöngu Frakka með öllum ráðum. Það tókst þó ekki. Eftir fjögurra tíma bardaga við Burgtor kom skipun um að hörfa. Fyrstu Frakkarnir voru þá að komast inn fyrir og opnuðu hliðið fyrir samherja sína fyrir utan. Þá upphófust miklir götubardagar, en í þeim tókst Prússum að hrinda árás Frakka nokkrum sinnum. En að lokum höfðu Frakkar betur og fóru rænandi og ruplandi um borgina. Mörgum Prússum tókst að flýja með Blücher herforingja í gegnum hið vel varða Holstentor, sem vissi til vesturs. Lübeck var á valdi Frakka. Blücher komst hins vegar ekki langt. Travemünde var skipalaust, þar sem Svíar höfðu notað öll skip á flótta sínum undan Frökkum. Hann lokaði sig með her sínum inni í smábænum Ratekau fyrir norðan Lübeck. Bernadotte umkringdi bæinn og bað Blücher að gefast upp. Blücher fékk að halda korða sínum, meðan almennir prússneskir hermenn lögðu niður vopn. Hann var settur í frjálslegt varðhald fyrir loforðið eitt að flýja ekki burt. Eftir að hafa bjargað fallbyssunum eftir orrustuna við Jena og staðið í hárinu á Frökkunum í Lübeck, varð Blücher á augabragði víðfrægur í Evrópu.

Orrustan við Leipzig

[breyta | breyta frumkóða]
Napoleon í Leipzig

1807 var Blücher látinn laus í skiptum fyrir franska hershöfðingjann Victor. Hann fór þá til Pommern og studdi þar Svía í viðleitni sinni að halda Frökkum í skefjum fyrir austan Berlín. Þegar Napoleon beið ósigur í Rússlandi 1812-13 tóku Prússar aftur upp baráttuna gegn Frökkum. Var Blücher þá kallaður til baka til að leiða prússneska herinn. Í október 1813 var stórorrustan við Leipzig háð. Orrusta þessi gekk einnig í söguna sem Þriggjakeisaraorrustan, þar sem keisarar Frakklands, Austurríkis og Rússlands leiddu saman hesta sína, ásamt Prússum. Orrustan varaði í þrjá heila daga við gríðarlegt mannfall og hallaði frekar á Napoleon. Á fjórða degi urðu Frakkar að víkja inn í Leipzig, en sameinaðir herir bandamanna náðu að taka borgina. Napoleon flúði með 100 þús manna lið til Frakklands og átti hann ekki afturkvæmt á þýska grund. Blücher var í þessari orrustu yfirmaður riddaraliðsins og hafði á að skipa 20 þús menn.

Orrustur í Frakklandi

[breyta | breyta frumkóða]

Blücher var einn þeirra herforingja sem eltu Napoleon til Frakklands, nær alla leið til Parísar. Þar dró til tveggja orrusta. 29. janúar 1814 sigraði Napoleon herlið Blüchers við Brienne, en það var aðeins varnarsigur. 1. febrúar börðust þeir aftur í orrustunni við La Rothière. Að þessu sinni hafði Blücher betur og Frakkar hörfuðu. Í báðum þessum orrustum var Blücher aðalhershöfðingi bandamanna. Ekki var barist aftur fyrr en 9. og 10. mars. Þá var Blücher með lið sitt við borgina Laon í Frakklandi. Napoleon réðist þar á bandamenn, þrátt fyrir að vera talsvert fáliðaðri. Í tveimur atlögum á tveimur dögum voru Frakkar hraktir til baka. Fyrri daginn veiktist Blücher alvarlega og varð að draga sig til baka. Hann gerði Gneisenau herforingja að yfirmanni hersins og það var hann sem náði að hrekja Napoleon burt úr Laon. Leiðin til Parísar var greið. 30. mars var árásin gerð á París. Blücher veiktist aftur einmitt þegar árásin hófst og kom því ekki við sögu. Napoleon gafst upp og var sendur í útlegð til eyjarinnar Elbu. Friðrik Vilhjálmur III, konungur Prússlands, var yfir sig hrifinn af þjónustu Blüchers, að hann gaf honum heilan bæ í Slésíu (Krieblowitz í Póllandi í dag).

Orrustan við Waterloo

[breyta | breyta frumkóða]
Minnisvarði um orrustuna frægu í bænum Waterloo í Belgíu

Aðeins ári síðar var Napoleon aftur kominn á kreik. Þá sendi Friðrik Vilhjálmur Blücher með 150 þús manna herlið vestur til að berjast við Frakka. Blücher hitti á Napoleon í Ligny (fyrir norðan Charleroi) í Belgíu 16. júní 1815. Aðstæðurnar voru erfiðar fyrir Blücher. Engir Rússar voru með í för, en fáliðaðar herdeildir frá Rínarsambandinu. Englendingar voru í grenndinni, en Napoleon náði að komast milli Englendinga og Prússa. Takmark hans var að sigra báða heri sitt í hvoru lagi. Hann setti Michel Ney hershöfðingja í að halda Englendingum í skefjum og réðist sjálfur á Blücher í Ligny. Í orrustunni höfðu aðilarnir til skiptis betur, en að lokum setti Napoleon gamla riddaraliðið á vettvang og fóru þá Prússar að hrökklast undan. Blücher tók sjálfur þátt í orrustunni. Mitt í orrahríðinni varð hestur hans fyrir skoti og drapst samstundis. Blücher varð hins vegar undir honum og gat ekki losað sig, enda orðin 72 ára gamall. Það var honum til happs að frönsku riddararnir sáu hann ekki undir hestinum þegar þeir geystust framhjá. Þannig slapp Blücher við handtöku eða dauða. Frakkar sigruðu í orrustunni fyrir rest, en aðeins tæknilega. Þeir náðu ekki að fella Prússa eða tvístra þeim, heldur aðeins að hrekja þá til baka. Napoleon hafði ekki tíma til að sinna Prússum frekar. Hann sneri sér að Englendingum og mætti þeim tveimur dögum seinna við bæinn Waterloo, en sú orrusta varð ein frægasta orrusta sögunnar. Napoleon réðist með offorsi á Englendinga og bandamenn þeirra. Þeir voru hraktir til baka nokkrum sinnum, sökum þess hve vel Englendingar höfðu komið sér fyrir. En að lokum virtust Frakkar hafa betur. Aðalhershöfðingi Englendinga var Wellington lávarður (Arthur Wellesley). Þegar Englendingar voru við það að hörfa, átti Wellington að hafa sagt: „Ég vildi að nóttin væri komin eða að Blücher væri kominn.“ Og honum varð að ósk sinni. Blücher hafði safnað liði eftir orrustuna við Ligny og kom nú Englendingum til hjálpar. Þá var klukkan orðin 1 eftir hádegi. Hann réðist á austurvæng Frakka og kom Napoleon í opna skjöldu. Við þessar aðstæður kom ótti í liði Frakka. Í stað þess að hörfa gerðu Englendingar gagnárás og brátt kom flótti í lið Frakka. Kl. 9 að kvöldi náðu Blücher og Wellington saman með herjum sínum og voru þá búnir að sigra þær frönsku herdeildir sem urðu á milli þeirra. Þeir eftirlétu Gneisenau herforingja að elta Frakka og stóðu þær mannaveiðar alla nóttina. Helmingur alla franskra hermanna féllu. Sigur bandamanna var í höfn. Strax eftir sigurinn kom það í hlut Blüchers að þramma inn í Frakkland og hertaka París, þar sem Englendingar voru of þreyttir og sárir eftir bardagann.

Endalok og eftirmæli

[breyta | breyta frumkóða]

Seinna sama ár var Blücher sæmdur járnkrossinum, æðsta heiðursmerki Prússlands. Blücher sjálfur dró sig í hlé í bæinn sinn Krieblowitz í Slésíu. Þar lést hann 1819, aðeins fjórum árum eftir orrustuna við Waterloo. Blücher var ákaflega vinsæll meðal hermanna sinna. Hann þótti mjög sanngjarn og aftók allar líkamlegar refsingar í hernum. Hann var dugmikill og hugrekkið hans var annálað. Samt sem áður þótti hann ekki sérlega kænn. Árangur hans á vígvellinum var dugnaði hans og atorku að þakka.