(Translated by https://www.hiragana.jp/)
Kastali - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Kastali

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Segovia-kastali á Spáni.

Kastali er víggirt mannvirki sem gjarnan er torsótt vegna staðsetningar. Flestir kastalar á miðöldum voru heimili hefðarfólks og konungborinna og voru byggðir til að standast áhlaup óvina, ásamt því að vera mikilvægt stöðutákn.

Þegar Rómverjar lögðu undir sig Evrópu byggðu þeir á lykilstöðum í álfunni virki sem urðu að miðstöðvum herafla þeirra. Þessi virki samanstóðu af nokkrum húsum og virkisvegg úr trédrumbum í kring um þau. Þessi hús voru kölluð castra á latínu en virkið var kallað castellum.

Þegar Rómarveldi leið undir lok jókst óöryggi í sífellt fjölmennari Evrópu með tilheyrandi árekstrum og deilum á milli þjóðarbrota og ráðamanna. Á 10. og 11. öld voru svo fyrstu kastalarnir byggðir og hélst latneska nafnið við þá. Þessir fyrstu kastalar voru að mestu jarðvegur og tré, sem þýðir að jarðvegi var ýtt upp í hæðir sem byggt var ofan á. Í kring um húsin efst á hæðinni var svo myndaður veggur úr trédrumbum. Flestir staðanna nýttu sér umhverfið á einhvern máta, annað hvort var byggt á hæð í umhverfinu eða við klettabelti til að spara sér vegginn. Fljótlega var farið að grafa skurði í kring um virkisveggina og fylla þá af vatni.

Monte San Giovanni Campano á Ítalíu.

Fljótlega hófu menn að nota steina við að reisa bæði hús og virkisveggi. Einnig varð að bregðast við öflugri vopnum, svo sem slöngvivað og færanlegum turnum. Urðu því virkisveggir og turnar stærri og stærri, síki breiðari og dýpri og aðkomuleiðir erfiðari.

Kastalar hafa ætíð haft umtalsverð áhrif á landsvæðið í kring um þá. Iðulega bjuggu þar aðalsmenn sem réðu yfir landshlutanum og þáðu skatt af íbúum þess. Í staðinn bar að vernda þegnana og var það oftast gert með því að koma þeim fyrir í kastalagarðinum á hættutímum. Ein öflugasta leiðin til að sigra andstæðing sem hafði komið sér fyrir innan kastalamúranna var að setja upp umsátur um kastalann. Í stað þess að ráðast til atlögu við kastalann var séð til þess að vistir og liðsafli gæti ekki borist til þeirra sem þar voru. Á endanum varð heimafólk hungri að bráð, nema það gæfist upp.

Hertogakastalinn í Szczecin, Pólland.

Vendipunktur í þróun kastala varð á 13. öldinni þegar byssupúður barst til Evrópu frá Kína. Öflugar fallbyssur urðu fljótlega staðalbúnaður í hverjum her og var lítið mál að skjóta niður hurðir og veggi með þeim. Sáu menn sér þá þann kost einan að færa bardagana frá heimilum sínum út á víðavang í stað þess að loka sig inní brothættum húsum.

Þessi þróun varð til þess að minna var lagt í varnarhlutverk kastalanna og breyttust heimili aðalsins úr kastölum yfir í að vera meira í líkingu við herragarða. Mjóar raufir fyrir bogaskyttur urðu að stórum gluggum og í stað vindubrúa komu steinbrýr.

Þrátt fyrir að hlutverki kastala í hernaði væri lokið var ekki hætt að búa í þeim, enda stór híbýli og mjög sterkbyggð. Fram til dagsins í dag eru fjölmargir kastalar enn í fullri notkun, margir sem söfn en þónokkrir sem heimili, jafnvel heimili afkomenda þeirra sem þá byggðu.