(Translated by https://www.hiragana.jp/)
Nestoríanar - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Nestoríanar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Nestorískir prestar í skrúðgöngu, veggmynd úr helli í Kína

Nestoríanismi er guðfræðikenning sem segir að Jesús sé og hafi verið tvær persónur, maðurinn Jesús og Jesús hinn guðlegi, sonur Guðs, og ekki ein persóna með tvö eðli eins og flestar kristnar kirkjur prédika. Þessi kenning er kennd við Nestoríus (fæddur 386 – látinn 451), patríarki í Konstantínópel. Þessi kenning um eðli Krists var fordæmd sem villutrú á kirkjuþinginu í Efesos árið 431, og það leiddi til þess að fylgjendur Nestoríusar sögðu skilið við meginkirkjuna.

Nestoríanismi var ein af þeim tilraunum sem gerðar voru í frumkristni til að útskýra og skilja eðli annars þáttar hinnar Heilögu þrenningar í manninum Jesú. Nestoríanar kenna að mannlegt og guðlegt eðli Jesú sé aðskilið og að hér sé um að ræða tvær persónur, maðurinn Jesús annars vegar og hins vegar Guð sem tók sér bólfestu í honum. Sem afleiðing af þessu afneita nestoríanar sem guðlasti orðalagi eins og „píning Guðs“ eða „Guð var krossfestur“, það var maðurinn Jesús Kristur sem var píndur og krossfestur en ekki Guð. Á sama hátt afneita þeir hugtakinu Theotokos (Sú sem fæðir Guð/Guðsmóðir) sem titli Maríu mey, og nota í staðin hugtakið Kristotokos (Sú sem fæðir Krist/Kristmóðir) vegna þess að María fæddi manninn Jesúm en ekki Guð.

Nestoríus (fæddur 386– dáinn 451) var sennilega fæddur í Persíu en menntaður í Antiokkíu í Sýrlandi (en er nú í Tyrklandi) og varð patríarki í Konstantínópel. Hann kenndi að guðleg og mannleg hlið Jesú væru aðskildar og á engan hátt samanfléttaðar. hann prédikaði gegn notkun hugtaksins Theotokos (Guðsmóðir) um Maríu mey og vildi nefna hana Kristotokos (Kristsmóðir). Hann hélt því einnig fram að guð hefði ekki getað verið píndur á krossinum þar sem hann er alsmáttugur. Þar af leiðandi dó hin mannlega hlið Jesú á krossinum en ekki sú guðlega.

Kenningar Nestoríusar voru úrskurðaðar villutrú af kirkjuþinginu í Efesos árið 431. Kirkjuþingið lýsti því yfir að Jesús væri ein og heil persóna og að María mey væri móðir Guðs. samþykktir þingsins leiddu til þess að kirkjan klofnaði og þeir söfnuðir sem fylgdu kenningu Nestoríusar mynduðu eigin kirkjudeild. [1] En deilurnar innan höfuðkirkjunnar um eðli Jesú héldu áfram og eftir kirkjuþingið í Kalkedon 451 klofnaði kirkjan en að nýju.

Nestoríanskt trúboð

[breyta | breyta frumkóða]

Kýrill patríarki í Alexandríu með stuðningi páfans í Róm hóf að ofsækja fylgismenn Nestoríusar hvar sem þeir komust að. En utan Rómaveldis og sérlega þar sem sýríska var töluð fjölgaði fylgismönnum Nestoríusar. Sassanída konungar Persíu, sem stóðu í stöðugum útistöðum við Austrómverska ríkið sáu sér leik á borði að fá bandamenn úr óvæntri átt. Öllum nestoríönum var lofað stuðningi og vernd kóngs 462 og konungur studdi byggingu kirkna og guðfræðiskóla í landinu.

Kirkja nestoríana sendi trúboða um Persíu alla til að byrja með þar til konungur bannaði trúboð innanlands. Hófst þá mikið trúboð í mið og austur Asíu á næstu öldum. Nestoríanskir trúboðar komu til Kína 635 og er enn að sjá mörg merki um starfsemi þeirra þar. Á svipuðum tíma fengu nestoríanar marga fylgismenn í Mongólíu og alla leið austur til Kóreu.

Á stjórnartíma keisarans Wuzong (840 til 846) varð kristni söfnuðurinn í Kína fyrir miklum ofsóknum. Keisarinn vildi útrýma öllum erlendum trúarhugmyndum og snérist þess vegna gegn bæði kristni og búddisma. Á næstu öldum átti kristni söfnuðurinn fremur erfitt uppdráttar. Það var ekki fyrr en á tímum Yuan keisaranna sem söfnuðurinn blómstraði að nýju. Markó Póló og aðrir vesturlandamenn lýsa nestoríönskum samfélögum bæði í Kína og Mongólíu á 13. öld. Það er ekki ljóst hvaða ástæður voru fyrir því en þessir kristnu söfnuðir liðu undir lok á Mingtímanum. Arfur trúboðanna lifir þó enn í söfnuðum assýrísku austurkirkjunnar í Írak, Íran og á Indlandi.

Úr hadíðum múslima má lesa samskipti Múhameðs við nestoríana. Einnig álíta margir fræðimenn að lýsingar Kóransins á Jesú (eða Isa eins og hann er kallaður þar) megi rekja til kenninga nestoríana. Þar að auki eru bænahefð múslima sem nefnd er raka'ah og bænahefð nestoríana fyrir páska nauðalíkar.

Neðanmálsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Monachos“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. júlí 2008. Sótt 16. maí 2007.