(Translated by https://www.hiragana.jp/)
Síkar - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið Fara í innihald

Síkar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Síkiskir pílagrímar

Síkar eru fylgjendur síkisma. Orðið „síki“ kemur úr sanskrítar rótinni śikkya (शिष्य) sem þýðir „fylgismaður“ og „nemandi“. Flestir síkar hafa ætt að rekja til Punjab á Indlandi og flestir þeirra búa þar enn þó að síkar búi nú um allan heim.

Hægt er að þekkja síkiska karlmenn og sumar konur á því að þau bera alltaf túrban til að þekja sítt hár sitt. Túrbaninnn er mjög sérstakur og lítur ekki út eins og túrbanar sem aðrar þjóðir í Asíu bera. Nú á tímum bera þó ekki allir síkar túrbana né hafa sítt hár. Í síkisma er ekkert vandamál að vera á mismunandi stigum í ræktun trúarinnar. Til dæmis má nefna svo nefndir Sahajdhari (hæg aðlögun) sem eru síkar sem ekki bera hin fimm K en eru álitnir síkar þrátt fyrir það.

Eftirnafnið (og enn algengara sem millinafn) Singh (þýðir ljón) er mjög algengt hjá karlmönnum, og Kaur (þýðir prinsessa) hjá konum. En langt frá því allir sem heita Singh eða Kaur eru síkar. Nafnið Singh er tengt hermennsku á Indlandi að minnsta kosti frá áttundu öld.